Ferill 726. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1184  —  726. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar (ÓÖH, KPál, GunnB, KF, ÁMöl, ÓI, KolH).



1. gr.

    Í stað orðanna „1. september 2001“ í 4. málsl. 10. tölul. í ákvæði til bráðabirgða í lögunum kemur: 1. júlí 2001.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á síðasta haustþingi voru samþykkt lög til breytingar á skipulags- og byggingarlögum. Var þá m.a. veittur umsóknarfrestur til 1. september 2001 til að sækja námskeið til löggildingar, samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna, sem umhverfisráðuneyti stendur fyrir í samvinnu við Samtök iðnaðarins. Fljótlega eftir að lögin voru samþykkt kom fram gagnrýni á þetta ákvæði laganna frá Meistarafélagi húsasmiða. Taldi félagið umsóknarfrestinn of langan og ákvað nefndin því að taka það til skoðunar. Fékk nefndin þá á sinn fund Baldur Þór Baldursson og Magnús Stefánsson frá Meistarafélagi húsasmiða, Ingimar Sigurðsson frá umhverfisráðuneyti og Ólaf Helga Árnason frá Samtökum iðnaðarins.
    Nefndinni hefur verið tilkynnt að samkomulag hafi náðst milli Meistarafélagsins, Samtaka iðnaðarins og umhverfisráðuneytis um að umsóknarfresturinn verði styttur til 1. júní 2001 og telur meiri hlutinn því eðlilegt að lögunum verði breytt. Hins vegar telur meiri hlutinn óraunhæft að stytta frestinn til 1. júní nk. og leggur til að hann renni út 1. júlí. Þá bendir meiri hlutinn á að nauðsynlegt er að auglýsa breytingu á umsóknarfresti í þessa veru mjög vel þar sem breytingin varðar réttarstöðu manna.